Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Trump vill Bitcoin sem hluta af gjaldeyrisvaraforða Bandaríkjanna


Stærsta Bitcoin ráðstefna heims var haldin í Nashville um liðna helgi. Sennilega hefur engin ráðstefna innan rafmyntaheimsins dregið að sér jafn stór nöfn en meðal gesta og fyrirlesara voru Donald Trump, Robert F. Kennedy Jr, Edward Snowden, Cathie Wood, Russell Brand og Vivek Ramaswamy.

Ræða Trump stóð án efa upp úr en á síðustu mánuðum hefur hann talað mjög opinskátt um stuðning sinn við Bitcoin og rafmyntir og hefur lagt fram fjölda tillagna sem hann mun beita sér fyrir verði hann kosinn forseti, sem verulegar líkur eru á sem stendur. 

Þar bar hæst að Trump leggur til að Bandaríkin láti af öllum frekari sölum á Bitcoin sem landið hefur eignast í gegnum tíðina og núverandi Bitcoin eign Bandaríkjanna verði þess í stað grunnur af gjaldeyrisvaraforða Bandaríkjanna (e. strategic reserve). Þá vill hann beita sér fyrir því að ný heildarlöggjöf um rafmyntir líti dagsins ljós og að Bandaríkin verði leiðandi land á þessu sviði í heiminum. Þá lagði þingmaðurinn Cynthia Lummis samhliða fram nýtt frumvarp sem leggur til að Bandaríkin kaupi til viðbótar Bitcoin sem hluta af gjaldeyrisforða sínum. Þar er gert ráð fyrir að keypt yrðu allt að 5% af öllum útgefnum Bitcoin en slík kaup myndu jafngilda um $68 milljörðum eða 10.000 milljörðum króna.

Þessi mikli áhugi Trump og repúblikana einskorðast þó ekki við flokklínur heldur virðast demókratar einnig hafa breytt um stefnu á síðustu mánuðum. Því til stuðnings virðist samþykki Ethereum kauphallarsjóðsins í júlí af hendi SEC hafi verið byggt á pólitískri stefnubreytingu en fram að þessu hefur SEC hafnað slíkum sjóðum.

Það hefur því verið algjör viðsnúningur í bandarískri pólitík gagnvart rafmyntum og ljóst er að yfirvöld eru byrjuð að viðurkenna að um sé að ræða eina stærstu tækniuppfinningum aldarinnar. Þá hefur ráðgjafateymi Kamölu Harris átt fundi með aðilum úr rafmyntageiranum á síðustu vikum sem ýtir frekar undir það að um stórt kosningamál sé að ræða fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Ætti það ekki að koma neinum á óvart enda eiga yfir 50 milljónir Bandaríkjamanna rafmyntir og meirihluti Fortune 500 fyrirtækja eru byrjuð að nýta sér bálkakeðjutæknina í starfsemi sinni.

Meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni var Robert F. Kennedy Jr. sem talaði einnig skýrt fyrir því að Bandaríkin myndu kaupa Bitcoin sem hluta af gjaldeyrisvaraforða sínum. Þá ræddi Edward Snowden um það hvernig rafmyntaheimurinn væri loksins að fá þá viðurkenningu sem hann á skilið. Þá nefndi Jan van Eck, forstjóri eignastýringafyrirtækisins VanEck, að hann ætti persónulega yfir 30% af sparnaði sínum í Bitcoin en eignastýringafyrirtækið er með yfir $100 milljarða í stýringu.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi