Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Þýskaland selur, kauphallarsjóðir kaupa


Innflæði í Bitcoin kauphallarsjóði hefur numið rúmlega 2 milljörðum dollara á fyrstu 12 viðskiptadögunum í júlí. Þar af var rúmlega 1 milljarður dollara sem flæddi inn í Bitcoin kauphallarsjóð BlackRock (Ticker: IBIT) og rúmlega 650 milljónir dollara sem fóru inn í sjóð Fidelity (Ticker: FBTC).

Heildarinnflæði í Bitcoin kauphallarsjóðina frá upphafi þeirra í janúar á þessu ári er yfir 16,6 milljarðar dollara.

Bitcoin lækkaði töluvert í júní og fyrstu dagana í júlí. Helsta ástæða lækkunarinnar var mikið framboð úr nokkuð óvæntri átt en þýska ríkið hafði haldlagt um 50.000 Bitcoin fyrir margt löngu og hóf að selja uppúr miðjum júní. Til viðbótar við þetta komu fregnir seint í júní af því að útgreiðslur úr Mt. Gox kauphöllinni kynnu að byrja að hefjast á næstu dögum eða vikum. Mt. Gox er kauphöll sem stofnuð var árið 2010 en lenti í því að tölvuþrjótar gerðu árás á hana árið 2014 sem leiddi á endanum til gjaldþrots hennar. Kröfuhafar kauphallarinnar hafa beðið eftir að endurheimta Bitcoin eign sína í rúman áratug og nú loksins sér fyrir endann á því. Markaðurinn horfði því upp á 2 stóra framboðspakka og Bitcoin lækkaði niður undir 54.000 dollara þegar verst lét.

Þýska ríkið hóf að selja mjög aggressíft í byrjun júlí og kláraði allt á veskinu sínu þann 12. júlí og hafði þá selt um 50.000 Bitcoin að því virðist að mestu leyti á verði á bilinu 54.000-59.000. Þýska ríkið seldi því Bitcoin fyrir tæplega 2,9 milljarða dollara.

Markaðurinn tók hressilega við sér þegar þýska ríkið hafði lokið sölum sínum og fór fljótlega aftur yfir 60.000 dollara múrinn og hefur haldið enn frekar áfram síðustu daga situr nú í kringum 64.500. Bitcoin verðið í dag er því rúmlega 13% hærra en meðalverð Þýskalands við söluna eins og sjá má á mynd hér að neðan.

Bandarísku kauphallarsjóðirnir tóku vel við sér þegar verðið tók að lækka í byrjun júlí og hafa keypt, eins og áður segir, yfir 2 milljarða dollara það sem af er júlí mánuði.


Höfundur
Daði KristjánssonFramkvæmdastjóri - Meðstofnandi