Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Rafmyntafyrirtækið Tether er einn stærsti kaupandi bandarískra ríkisskuldarbréfa


Árið 2024 var rafmyntafyrirtækið Tether sjöundi stærsti kaupandi bandarískra ríkisskuldabréfa á heimsvísu. Félagið jók eign sína um 33 milljarða bandaríkjadala, sem er meiri fjárfesting en sést hefur frá löndum á borð við Kanada, Taívan og Mexíkó. Nemur þessi fjárfesting nálægt landsframleiðslu Íslands fyrir sama ár. 

Þetta undirstrikar vaxandi áhrif stöðugleikamynta í fjármálakerfi heimsins. Tether gefur út stöðugleikamyntina USDT og nemur markaðsvirði hennar um 143 milljarða dollara. Stöðugleikamyntir eru rafmyntir sem fylgja gengi hefðbundinna gjaldmiðla. Að baki rafmyntunum eru fjárfestingar í ríkisvíxlum og innlánum í viðkomandi gjaldmiðli. Upphaflega voru þessar myntir eingöngu notaðar í viðskiptum með rafmyntir, en á síðustu árum hefur notkun þeirra verið að færast út fyrir rafmyntamarkaði og eru þær í auknu mæli nýttar í viðskiptum eða greiðslumiðlun um heim allan. Hægt er að senda þessar myntir hvert sem er á augabragði með ódýrum hætti sem er mikill ávinningur umfram hefðbundnar millifærslur.

Samhliða þessu hefur ný ríkisstjórn í Bandaríkjunum gefið út skýr skilaboð um að hún vilji styðja við þróun stöðugleikamynta með skýru regluverki. Þar kemur sérstaklega fram að stöðugleikamyntir geti orðið lykilstoð í fjármálakerfi framtíðarinnar, bæði í greiðslumiðlun og viðskiptum, sem og til að styðja við áframhaldandi stöðu Bandaríkjadollars sem varaforðamynt heimsins. Þá hafa bandarísk yfirvöld nefnt að markaðsvirði stöðugleikamynta gæti fljótlega numið þúsundum milljarða Bandaríkjadollara.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi