Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Stofnanafjárfestar halda áfram að kaupa Bitcoin


Bitcoin kauphallarsjóðir fóru af stað í janúar sl. og hafa vinsældir þeirra verið meiri en á nokkrum öðrum kauphallasjóðum í sögunni. Samtals hafa flætt inn í sjóðina um 17,5 milljarðar dollara frá fjárfestum. Sjóður BlackRock, IBIT, var fljótasti sjóður í kauphallarsögunni að ná 10 milljarða dollara stærð en það tók einungis um 7 vikur.

Bandarískir stofnanafjárfestar þurfa að skila inn upplýsingum um eignir sínar í lok hvers ársfjórðungs og birta opinberlega eigi síðar en einum og hálfum mánuði eftir lok ársfjórðungsins, svokallaðar “13F filings”.

Það var því áhugavert að fylgjast með þessum birtingum í maí sl. þar sem fram kom hverjir höfðu fjárfest í Bitcoin kauphallarsjóðunum á fyrsta ársfjórðungi ársins. Þá kom fram að margir af stærstu vogunarsjóðum heims væru eigendur Bitcoin kauphallarsjóðanna. Einnig var áhugavert að sjá lífeyrissjóð starfsmanna Wisconsin fylkis á eigendalistanum í maí. Til viðbótar bárust fregnir í júlí um annan lífeyrissjóð í Bandaríkjunum eða lífeyrissjóð Michigan fylkis sem hafði fjárfest í Bitcoin kauphallarsjóði ARK Invest.

Nú í ágúst voru birtar tölur um eigendur Bitcoin kauphallarsjóðanna við lok 2. ársfjórðungs en þar kom fram að stofnanafjárfestar halda áfram að kaupa sjóðina og sífellt fleiri nöfn eru að bætast á listann.

Stærstu kaupendur IBIT kauphallarsjóðsins í rekstri BlackRock á 2. ársfjórðungi

Athyglisverð nöfn eru á listanum yfir stærstu kaupendur IBIT á 2. ársfjórðungi en þar má sjá að breski vogunarsjóðurinn Capula Management keypti mest allra á fjórðungnum (~$250m) en sjóður Capula er um $30 milljarðar að stærð.

Bankarnir Goldman Sachs og Morgan Stanley voru einnig umsvifamiklir kaupendur. Það vakti einnig athygli að sjá Tudor Investment Corp á listanum en það er sjóður sem hinn reynslumikli Paul Tudor Jones rekur, en hann hefur áður talað með mjög jákvæðum hætti um Bitcoin.

Heildarfjöldi stofnanafjárfesta sem áttu hlut í Bitcoin kauphallarsjóðunum í lok 2. ársfjórðungs voru 1.100 talsins og jókst fjöldi þeirra um 14% á milli fjórðunga.


Höfundur
Daði KristjánssonFramkvæmdastjóri - Meðstofnandi