Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Rafmyntaráðstefna í London með Visku


Forsvarsmenn Visku Digital Assets sóttu ráðstefnuna Digital Assets Forum í London í síðustu viku þar sem Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku, var í pallborði á ráðstefnunni og stýrði umræðum undir heitinu „Industry Outlook: Macro Trends and Predictions for 2025“ ásamt þremur reynsluboltum úr rafmyntageiranum.

Í pallborðinu ásamt Daða voru þeir Tim Grant hjá Deus X Capital, Patrick Heusser hjá Trident Digital og Oliver Tonkin hjá BCB Group.

Bæði fólk úr hefðbundna fjármálageiranum, rafmyntageiranum og frá hinu opinbera sóttu ráðstefnuna og má þar nefna aðila frá franska, danska, svissneska og enska seðlabankanum. Einnig var fólk frá fyrirtækjum eins og Deutsche Bank, J.P. Morgan, BlackRock, BNP Paribas og Standard Chartered bankanum svo dæmi séu tekin.

Helstu þættir sem ræddir voru í pallborði Daða: 

1. Pólitískar breytingar í Bandaríkjunum 

Rætt var um hvernig Bandaríkin eru augljóslega að taka sér leiðtogahlutverk í rafmyntageiranum á heimsvísu í kjölfar sigur Trump og Repúblikana. Það er klárlega jákvætt fyrir rafmyntageirann að stærsta efnahagskerfi heims sé núna að leggja svona mikla áherslu á hann en það leiðir einnig af sér spurninguna um hvaða áhrif þetta hefur á Evrópu. Mun Evrópa ná að halda í við Bandaríkin, eða gæti hún orðið á eftir þar sem aðrar heimsálfur taka hraðar upp rafmyntir? Því miður voru þátttakendur pallborðsins ekki mjög bjartsýnir fyrir hönd Evrópu (þrátt fyrir að vera allir frá Evrópu) og töldu að mögulegu forskoti sem var til staðar áður hafi nú verið glutrað niður.

2. Þátttaka stofnanafjárfesta og þörf fyrir nýtt fjármagn 

Annar áherslupunktur var þátttaka stofnanafjárfesta í rafmyntageiranum. Rætt var um góðan árangur kauphallarsjóða og aukinn áhuga bandarískra banka á að taka þátt í geiranum eftir nýlegar reglugerðarbreytingar í Bandaríkjunum. Umræðan snérist einnig um áskoranir við að laða að nýtt fjármagn frá stofnanafjárfestum eins og lífeyrissjóðum og tryggingafélögum en jákvætt væri að sjá að slíkir aðilar væru þegar byrjaðir að fjárfesta í þessum eignaflokki í einhverjum mæli.

3. Þjóðríki og seðlabankar skoða Bitcoin sem eign í varaforða

Rætt var um aukinn áhuga á Bitcoin sem mögulegri eign í varaforða hjá þjóðríkjum og seðlabönkum. Þessi umræða hefur verið að aukast og má þar nefna dæmi eins og að Bandaríkin hafa nú skipað nefnd til að skoða möguleikann á því að setja upp svona varaforða en einnig nefndi seðlabankastjóri Tékklands nýlega að hann væri áhugasamur um að setja allt að 5% af varaforða bankans í Bitcoin.

Uppselt var á ráðstefnuna og góð mæting var á pallborðsumræðurnar sem Daði tók þátt í eins og sjá má myndinni hér að neðan.

Guðlaugur Gíslason og Jón Grönvold voru einnig fulltrúar Visku á ráðstefnunni en hér eru þeir ásamt Daða og Siam Kidd stofnanda og fjárfestingastjóra DSV Fund.

Fylgið okkur á LinkedIn til að fá tilkynningar um nýjustu fréttirnar okkar


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi