Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Nýmyndun Bitcoin helmingast á þriðjudaginn


Greinin var birt í Viðskiptablaðinu þann 6. maí 2020.

Ástandið í heiminum í dag er einstakt. Talað er um hundrað ára krísu og ljóst er að áhrifin eru ekki komin fram að fullu. Á sama tíma og seðlabankar og ríki keppast við að prenta sig út úr krísunni mun Bitcoin auka taumhald eigin peningastefnu sem skilgreind var árið 2008. Fjórða hvert ár minnkar ný útgáfa um helming á einni nóttu í Bitcoin hagkerfinu (e. Bitcoin halving).

Þetta er gert með fyrirsjáanlegum hætti og er afurðinni miðlað til þeirra sem tryggja kerfið með námuvinnslu. Þessi atburður á sér stað næstkomandi þriðjudag og mun hafa mikil áhrif á þróun rafmyntamarkaða.

Augun beinast að Bitcoin

Síðast átti helmingunin sér stað árið 2016 og vakti þá heimsathygli. Þá fór útgáfan úr tæpum átta prósentum niður í fjögur prósent á ársgrundvelli. Ef horft er til greiningar á uppflettingum í Google Trends sést að umræðan er að margfaldast. Einnig hefur aðgengi að mörkuðum aukist til muna með skráningu sjóða og afleiðna eins og Grayscale Bitcoin Trust og Bakkt í kauphöllum vestanhafs.

Takmörkuð auðlind

Í heildina verða einungis 21 milljón eintök til af rafmyntinni og í dag hafa 18,4 milljónir verið gefin út. Einungis á því eftir að gefa út 2,6 milljónir á næstu 120 árum. Ný útgáfa mun minnka úr 656.250 eintökum niður í 328.125 á ársgrundvelli. Þetta þýðir í raun að ný útgáfa, eða verðbólga (til einföldunar) fer undir tvö prósent næstu fjögur árin og verður því sambærileg bæði stærstu hagkerfum heimsins og gulli.

Söluþrýstingurinn minnkar

Í námuvinnslu er algengt að meirihluti af framleiddri afurð sé seldur til að eiga fyrir kostnaði. Á þriðjudaginn minnkar daglegt innflæði á söluhliðinni um 900 Bitcoin sem eru 8,4 milljónir Bandaríkjadala á núvirði. Á hverju ári er því söluþrýstingur sem nemur rúmlega 3 milljörðum Bandaríkjadala fjarlægður og með óbreyttri eftirspurn ættu markaðsöflin að sjá til þess að verðið rísi. Framboðsskellurinn á þessum 160 milljarða Bandaríkjadala markaði ætti því að vera talsverður.

Gagnaver og námuvinnsla á Íslandi

Þessi skerðing í framleiðslunni hefur mikil áhrif á þá sem tryggja Bitcoin netið með námuvinnslu. Það liggur í augum uppi að staða gagnavera á Íslandi mun því þrengjast tímabundið, ekki bara sökum tekjuhruns, heldur einnig aukinnar óvissu. Eldri búnaður á síður möguleika á því að lifa höggið af og því er mikilvægt að gagnaverin og þeirra viðskiptavinir fjárfesti í nýjum búnaði til að halda starfseminni gangandi.

Það bætir ekki úr skák að verð á raforku í heiminum hefur hríðfallið út af minnkandi eftirspurn í kjölfar veirunnar og er samkeppnin því að harðna hratt. Þó að Ísland hafi skapað sér stöðu innan rafmyntaheimsins sem góð staðsetning fyrir námuvinnslu stendur sú staðreynd illa í núverandi aðstæðum á markaði. Íslenskur raforkumarkaður er nánast að fullu hannaður fyrir stóriðju líkt og álver og á erfitt með að mæta þörfum vinnslu sem er mjög breytileg með raforkunotkun sem eykst eða minnkar milli daga. Einnig er raforkumarkaðurinn á Íslandi ekki jafn markaðsdrifinn, og því er ekki fyrirséð að öll fyrirtækin lifi þessar hræringar af. Gagnaverin sköpuðu tæplega níu milljarða útflutningsverðmæti árið 2017 skv. tölum frá Samtökum gagnavera á Íslandi.

Bjartar langtímahorfur

Ljóst er að óvissan er mikil, en jarðvegurinn fyrir Bitcoin hefur aldrei verið jafn frjór. Eftir því sem horfur hagkerfisins versna, sækja fjárfestar í meira öryggi. Í ljósi fordæmalausrar peningaprentunar og landsframleiðslu heimsins í frjálsu falli má vænta þess að verðbólguþrýstingurinn muni aukast jafnt og þétt.

Ef fólk vill flýja það kerfi stendur Bitcoin sem einn af augljósu kostunum í því viðbragði. Því hefur í seinni tíð verið stillt upp sem rafrænni útgáfu af geymsluverðmætinu gulli, sem á þó eftir að sanna sig í stórri krísu. Það sem af er ári er Bitcoin búið að hækka um 27%, en það lauk nýverið sinni sjöttu leiðréttingarlotu og fjárfestar halda því enn þétt að sér. Einnig er tækifæri fyrir Bitcoin að saxa á forskot gullmarkaðarins, sem í dag er 4.200% stærri.

Nýr markaður með rafmyntir opnar á mánudaginn

Myntkaup.is hlaut á dögunum skráningu hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands fyrir nýjan skiptimarkað með rafmyntir. Verður opnun markaðarins kærkomin leið til að eignast og selja rafmyntir fyrir Íslendinga.


Höfundur
Kristján Ingi MikaelssonFjárfestingar - Meðstofnandi