Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir bráðna upp – Hvað liggur að baki ?


Greinin birtist á heimsíðu Viðskiptablaðsins þann 31. maí 2024.

Eftir fjármálakrísuna 2008 má segja að vestrænir fjármálamarkaðir hafi breyst til muna. Stórum fjármálafyrirtækjum var bjargað með prentun nýrra peninga og vestræn þjóðríki tóku samhliða á sig auknar skuldabyrðar. Frjálsir markaðir heyrðu sögunni til. Undirritaður hefur átt kynni við aðila sem störfuðu við sjóðastýringu á Wall Street fyrir fjármálahrunið 2008 sem í kjölfar þess ákváðu að leita í önnur störf þar sem markaðirnir breyttust á einni nóttu. Fræðin og kenningarnar sem okkur voru kennd í skóla um samhengi markaða við afkomu fyrirtækja og hagsveiflur höfðu brenglast og aðrir kraftar tóku við.

Seðlabankar taka völdin

Frá þessum tíma hafa áhrif þessara þátta einungis aukist enn frekar og til útskýringar er hér vísað í inngrip seðlabanka heimsins inn á áður frjálsa markaði og er þá sérstaklega átt við Seðlabanka Bandaríkjanna (FED) þótt Seðlabanki Evrópu (ECB) glími einnig við sambærileg vandamál. Í dag blasir við að efnahagsreikningur FED, sem jókst úr 1.000 í 3.000 milljarða dollara á 5 árum eftir 2008, hefur nú aukist upp í 7.000 milljarða. Frægt var þegar Ben Bernanke fyrrverandi Seðlabankastjóri Bandaríkjanna mætti á þingfund árið 2010 og útskýrði hvernig bankinn ætlaði sér að selja til baka eignir af efnahagsreikningi FED á ný eftir að þær höfðu meira en tvöfaldast frá 2008. Staðreyndin var hins vegar sú að eignir FED margfölduðust áfram næstu árin þvert á áform seðlabankastjórans. Freistnivandinn var einfaldlega of mikill að grípa inn í markaði með ofgnótt lausafjár og færa þannig vandamálin yfir á framtíðar kynslóðir.

Gengdarlaus halli ríkisfjármála

Sömu sögu er að segja af ríkisfjármálum vestrænna landa. Í fjármálakrísunni 2008 beittu flest lönd miklum slaka í ríkisfjármálum og juku við skuldir til að mýkja höggið. Þó má nefna að aðkoma ríkisfjármála til að draga úr sveiflum í efnahagslífinu sé ekki ný hugmyndafræði og getur mögulega gengið upp ef þær skuldir sem ríkið tekur sér á herðar eru greiddar niður í kjölfarið. Þar stendur hnífurinn hins vegar í kúnni því það virðist vera miklum erfiðleikum háð að fá stjórnmálamenn til þess að greiða niður skuldir. Sem dæmi hefur bandaríska ríkið verið rekið með halla öll síðustu 53 ár að undanskildum 4 árum í kringum aldamót. Ástæðan er sú að aukin ríkisútgjöld kaupa atkvæði kjósenda og skiptir fjármögnun þeirra ekki endilega máli í augum kjósenda. Ástæðu þess mætti líklega skrifa á dræmt fjármálalæsi almennings. Á móti hefur ráðdeild í ríkisfjármálum með niðurgreiðslu skulda og samdrátt í útgjöldum og þjónustu ekki verið ávísun á miklar vinsældir stjórnmálamanna. Hér sjáum við blasa við þann mikla umboðsvanda sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir. Þegar áföll dynja yfir líkt og 2008 eða á tímum kórónufaraldursins 2020 er ráðist í stóraukin ríkisútgjöld og inngripa seðlabanka sem ríki heimsins vinda síðan ekki ofan af. Vandamálunum er þannig ýtt áfram inn í framtíðina en nú eru vísbendingar um að komið sé að skuldadögum.

Vítamínsprauta fyrir markaði

Þjóðarskuldir Bandaríkjanna eru komnar vel yfir 120% af landsframleiðslu og gerir fjárlagaskrifstofa Bandaríkjanna ráð fyrir áframhaldandi hækkun um ófyrirséðan tíma. Þetta er bein afleiðing af framangreindum hallarekstri bandaríska ríkisins og með hærra vaxtastigi má segja að landið sé komið í skuldaspíral. Bandaríska ríkið þarf því til viðbótar við halla á frumjöfnuði ríkisins að fjármagna hækkandi vaxtagreiðslur enda eru vaxtagjöld orðin meiri en útgjöld til varnarmála þar í landi. Þegar stærsta hagkerfi heims stendur í því að greiða 107 dollara út í hagkerfið fyrir hverja 100 sem það tekur í skatttekjur þá þarf ekki margar háskólagráður til að sjá hversu örvandi slíkar aðgerðir eru fyrir hagkerfið. Því kemur ekki á óvart að hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur verið meiri en í flestum vestrænum ríkjum. Þá kemur heldur ekki á óvart að hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum hafa náð hverjum toppnum á fætur öðrum og af þeim 15 árum sem hafa liðið frá fjármálakreppunni 2008 hefur aðeins 1 ár komið þar sem arðsleiðrétt hlutabréfavísitala S&P 500 hefur lækkað meira en 5%.

Ósjálfbært ástand

Nú er eðlilegt spyrja sig hvort Bandaríkin hafi fundið upp eilífðarvélina eða hinn heilaga kaleik af uppsprettu efnahagslegrar velsældar? Ef viðkomandi er sannfærður um það má velta því upp hvers vegna bandaríska ríkið innheimtir einhverja skatta yfir höfuð. Því sá er væntanlega sannfærður um að fjármögnun ríkis með kaupum Seðlabanka með nýútgefnum peningum dugar ein og sér? Undirritaður telur þetta engan vegin vera rétta leið til velsældar því í raun eru einungis verið að taka lán frá framtíðar kynslóðum til að greiða fyrir neyslu dagsins í dag. Hagsagan á mörg dæmi um hvernig slíkt spilast út. Ef þjóðir ná ekki fram stórkostlegri aukningu í framleiðni hagkerfisins kemur ójöfnuðurinn fram í aukinni verðbólgu og lækkandi gengi gjaldmiðilsins. Raunvaxtastig kemur einnig til með að lækka þar sem yfirskuldsett hagkerfi þolir illa háa vexti og ósjálfbær skuldastaða leiðréttist í gegnum hærri verðbólgu yfir tíma. Í slíku umhverfi má jafnan sjá fjárfesta færa sig úr innlánum og skuldabréfum og út á áhætturófið og fjárfesta í áhættumeiri eignum til að viðhalda kaupmætti sparnaðar síns.

Eignasöfn þurfa að aðlagast breyttu umhverfi

Hið klassíska 60/40 eignasafn (60% hlutabréf og 40% í skuldabréf) hefur skilað góðri ávöxtun síðustu áratugi. Frá árinu 1981 hefur vaxtastig farið sífellt lækkandi og ýtt undir hækkandi verð skuldabréfa og hlutabréfa. Nú blasir hins vegar við önnur heimsmynd þar sem verðbólga virðist ekki komast niður í fyrri gildi og eru orsakirnar þar margar. Þensluhvetjandi ríkisfjármál, aukning peningamagns í umferð, hækkandi hrávöruverð, viðsnúningur í alþjóðavæðingu og svo mætti lengi telja.

Því er niðurstaða undirritaðs sú að erlendir hlutabréfamarkaðir munu að öllum líkindum halda áfram að hækka, a.m.k. um einhvern tíma þar sem sömu leikjafræði verður áfram beitt á mörkuðum sem og í ríkisrekstri. Staða ríkishalla og skuldasöfnunar er einfaldlega komin svo langt frá því sem eðlilegt er að það mun enginn stjórnmálamaður sjá hag sínum best borgið með því að taka í bremsuna því slíkum aðgerðum myndi fylgja efnahagslegar hörmungar til skamms tíma. Reglulega er auknu lausafé ausið inn á fjármálamarkaði sem fjármagnað er með auknum þjóðarskuldum og því stækkar vandamálið sífellt. Það er því ekki tilviljun að flestir erlendir hlutabréfamarkaðir eru komnir í sín hágildi sem og hrávörumarkaðir og gull sem er bein afleiðing þessa ástand sem hér að framan er lýst.

Það er því komið að því að fjárfestar þurfi að hugsa eignasöfn sín upp á nýtt inn í þann áratug sem við nú lifum. Telja má líklegt að fjárfestar sjái sér betur borgið í eignum sem eru líklegar til þess að viðhalda kaupmætti sparnaðar þeirra. Slíkar eignir geta verið fjárfestingar í hlutabréfum í fyrirtækjum sem hafa getu til að velta verðbólgu út í verðlag eða eignum sem eru til í takmörkuðu magni s.s. hrávörum og eðalmálmum eins og gulli. Bandarísk ríkisskuldabréf gætu á sama tíma skilað mun lakari raunávöxtun en þau hafa gert undanfarna áratugi því framundan er gríðarleg útgáfuþörf og dræm eftirspurn. Einnig spilar þar inn í að verðbólga mun líklega áfram vera yfir markmiði sem undirritaður telur miklar líkur vera á.

Bitcoin fær aukna athygli

Loks hefur nýr eignaflokkur fengið mikla athygli í þessu umhverfi sem eru rafmyntir og þá sérstaklega Bitcoin. Bitcoin er eign sem fjárfestar hafa leitað í þar sem í raun er um að ræða andstæðuna við það hvernig núverandi peningakerfi er sett upp. Bitcoin er til í mjög takmörkuðu magni og er í raun öruggasta tölvukerfi sem til er. Því mætti líkja Bitcoin helst við stafrænt gull. Af þeirri ástæðu hafa fjárfestar sýnt Bitcoin aukinn áhuga því sögulega hafa eignir sem til eru í takmörkuðu magni reynst besta vörnin gegn verðbólgu og útþenslu peningakerfisins. Í þeim hópi má segja að Bitcoin sé til í mest takmarkaða magninu af slíkum eignum þar sem ekki verða til fleiri Bitcoin umfram skilgreinda útgáfuáætlun jafnvel þótt verð hækki. Það kemur því ekki á óvart að meirihluti stærstu fjárfestingasjóða í heimi hafi á þessu ári fjárfest í þessum eignaflokki og meirihluti stærstu eignastýringaraðila í heiminum bjóði nú upp á fjölbreytta þjónustu við rafmyntir. Því má telja mjög sennilega að vegferð rafmynta sem fjárfestingakosts sé aðeins rétt að byrja.

Höfundur er Guðlaugur Steinarr Gíslason fjármálahagfræðingur og fjárfestingastjóri Visku Digital Assets.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonCIO - Founding Partner