Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Kína og Hong Kong stíga inn í rafmyntaheiminn á ný


Sífellt fleiri löndum í heiminum eru farin að sjá tækifæri í þeirri miklu uppbyggingu sem á sér stað í rafmyntageiranum. Mörg þeirra eru farin að reyna að laða til sín fyrirtæki sem leggja áherslu á þessa nýju tækni. Þessari þróun er oft líkt við uppvöxtinn í Kísildalnum í Bandaríkjunum sem mörg af stærstu tæknifyrirtækjum í heimi hafa orðið til.

Nú hafa yfirvöld í Hong Kong lýst yfir áhuga á að verða „rafmyntamiðstöð“ (e. Crypto Hub) vegna staðsetningar sinnar sem tengir saman vestrið og austrið, öflugra fjármálainnviða svæðisins og langrar sögu frjálsra viðskipta. Að auki hafa stjórnvöld í Hong Kong tekið frumkvæði í þróun fjártæknigeirans, þar með talið regluverki um stafrænar eignir. Margir túlka þennan breytta tón á þann veg að Kína sé að verða opnara fyrir rafmyntafyrirtækjum enda stýrir Kína ferðinni á þessu svæði í dag. Þetta eru stórar fréttir enda hefur Hong Kong sögulega gegnt veigamiklu hlutverki í að tengja saman fjármálamarkaði Vesturheims við Kína. Bloomberg fjallaði um málið nýlega sem sjá má hér.

Þá hefur Bloomberg fréttaveitan heimildir fyrir því að kínverskir ríkisbankar hafi haft frumkvæði í því að sækja viðskipti til rafmyntafyrirtækja sem gefur sterka vísbendingu um að yfirvöld í Peking séu með í ráðum sem markar viðsnúning hjá kínverskum yfirvöldum í viðhorfi sínu gagnvart rafmyntum. Sjá nánar hér.

Til viðbótar þá hafa kínversk tryggingafélög í eigu ríkisins (hluti af China Pacific Insurance Company fyrirtækjasamstæðunni) komið að fjárfestingum í tveimur fjárfestingasjóðum sem fjárfesta í rafmyntafyrirtækjum. Það er því augljóst að viðhorf Kína til rafmynta er að taka miklum breytingum til hins betra. Sjá nánar hér.

Önnur lönd hafa einnig verið að láta til sín taka í rafmyntaheiminum. Svissneska borgin Zug hefur lagt áherslu á að laða að fyrirtæki í geiranum en af 960 nýsköpunarfyrirtækjum á sviði rafmynta starfandi í Sviss eru 433 staðsett í Zug. Þá hefur Finma, Fjármálaeftirlitið í Sviss, einnig verið fremur jákvætt í garð rafmynta og meðal annars gefið tveimur rafmyntabönkum starfsleyfi.

Þá var nýlega samþykkt í Evrópuþinginu löggjöf um rafmyntir (MiCA) sem markar tímamót í innleiðingu rafmynta og mun styðja við framþróun þeirra næstu ár enda hefur lengi verið beðið eftir heildstæðum lögum um rafmyntaheiminn. Eftir innleiðingu þeirra geta rafmyntafyrirtæki óskað eftir starfsleyfi og fengið samtímis starfsleyfi í 27 Evrópulöndum.

Forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, setti fram áætlun í apríl 2022 um að Bretland yrði „miðstöð fyrir rafmyntatækni og fjárfestingar í rafmyntum“ en hann var fjármálaráðherra á þeim tíma.

Sameinuðu Arabísku Furstadæmin (UAE) hafa einnig séð tækifæri í að draga til sín fyrirtæki í rafmyntabransanum þar sem yfirvöld hafa hvatt til innleiðingar á bálkakeðjutækni. Dubai er orðin miðstöð fyrir sprotafyrirtæki (e. startups) í rafmyntum og fjölmargar stórar rafmyntaráðstefnur eru haldnar í borginni ár hvert.

Bandaríkin hafa staðið sig vel á ákveðnum sviðum hvað þessi mál varðar en það ríkir ennþá óvissa um regluverk varðandi ákveðna þætti rafmyntageirans sbr. nýlegar aðgerðir SEC. Þegar Kína bannaði Bitcoin námuvinnslu árið 2021 voru mörg fyrirtæki í geiranum á hrakhólum en Bandaríkjamenn tóku þeim opnum örmum. Stór hluti fyrirtækjanna fluttu starfsemi sína til Texas og einnig hafa fylki eins og Wyoming og Flórída breytt regluverki til hins betra til að hvetja fyrirtæki í rafmyntageiranum til að byggja upp sín fyrirtæki þar. Í dag eiga þó Bandaríkin hættu á að dragast aftur úr sé horft til framþróunar í regluverki og þá sérstaklega í samanburði við Evrópu.

Recap, sem er fyrirtæki sem veitir þjónustu fyrir rafmyntafjárfesta birti nýlega grein um þær borgir þar sem rafmyntafyrirtæki hafa mest starfað í og þar sést vel hversu útbreidd starfsemi rafmyntafyrirtækja er í öllum heimsálfum. Greinina má sjá hér.

Það er því greinilegt að lönd eru að reyna draga til sín starfsemi rafmyntafyrirtækja víða um heim. Í umræðu á hinu pólitíska sviði er einnig reglulega rætt um hvernig lönd geti skapað samkeppnishæft umhverfi fyrir rafmyntageirann þannig náð forskoti á önnur lönd með því að vera fyrri til. Stofnanafjárfestar koma ekki að borðinu af fullum krafti fyrr en heildarlöggjöf um rafmyntageirann liggur fyrir. Það verður því spennandi að fylgjast með þessari þróun áfram og hvort Kína haldi áfram opna á rafmyntir og hve mikið hin nýja löggjöf í Evrópu muni ná að draga til sín meiri umsvif á þessu sviði.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi