Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Mikið innflæði í Bitcoin kauphallarsjóði


Þann 10. janúar samþykkti Bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) ellefu kauphallarsjóði eftir 10 ára vegferð rafmyntageirans um að fá slíkan sjóð samþykktan. Þessi atburður markar einn stærsta áfanga í sögu Bitcoin og sennilega eina stærstu viðurkenning sem rafmyntageirinn hefur fengið frá upphafi. Samþykkið hefur ekki síst mikla þýðingu vegna þess að aðgengi hefðbundinna fjárfesta að Bitcoin eykst verulega. Allir fjárfestar sem vanir eru að stunda sín viðskipti í hefðbundnum viðskiptakerfum, hvort sem um er að ræða stóra stofnanafjárfesta eða litla einkafjárfesta, geta nú keypt Bitcoin sjóði með ódýrum og einföldum hætti. Kauphallarsjóðirnir einfalda fjárfestum lífið þar sem þeir þurfa ekki að afla sér tæknilegrar þekkingar, setja upp veski á bálkakeðjum eða stofna sig til viðskipta á rafmyntakauphöllum sem þeir þekkja lítið til.

Þegar þetta er skrifað hefur uppsafnað nýtt innflæði í kauphallarsjóðina numið yfir 2 milljörðum dollara og hefur aukist verulega á síðustu dögum. Til að setja þetta í samhengi má nefna að tveir af stærstu Bitcoin kauphallarsjóðunum, sjóðir BlackRock og Fidelity, hafa slegið met í innflæði allra kauphallarsjóða í Bandaríkjunum fyrsta mánuð eftir skráningu. Tróna þeir á toppnum á meðal 5.535 kauphallarsjóða sem skráðir hafa verið í Bandaríkjunum. Á meðfylgjandi mynd sést uppsafnað innflæði í Bitcoin kauphallarsjóði frá fyrsta viðskiptadegi sjóðanna þann 10. janúar sl.

Það felst einnig mikil viðurkenning í því fyrir rafmyntageirann að stærstu eignastýringarfyrirtæki heims eru þátttakendur í þessu ferli. Með samþykkinu hófst mikið kapphlaup um hvaða kauphallarsjóður verður stærstur með tilheyrandi markaðssókn þessara fyrirtækja. BlackRock ($9tn AUM) og Fidelity ($4tn AUM) hafa leitt innflæðið og hafa forstjórar beggja fyrirtækja mætt í viðtöl til að ræða sýn þeirra á eignaflokknum. Þungavigtarfólk úr fjármálageiranum er því að stíga inn í umræðuna með jákvæðum hætti sem hjálpar til að gera eignaflokkinn að meiri meginstraums (e. mainstream) fjárfestingu. Hinir nýju sjóðir lækkuðu þóknanir sjóðanna verulega eða allt niður í 0,2% á ári og í sumum tilvikum tímabundið lægra. Það virðist því vera hörð samkeppni á milli aðila enda sýnir reynsla slíkra kauphallasjóða að það er mikill ávinningur að ná fótfestu snemma á markaðinum sem auðveldar sjóðunum að fá frekari fjárfestingar í framtíðinni. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framgangi þessara sjóða nú þegar Bitcoin helmingunin (e. halving) er framundan í apríl en sögulega hefur tíminn í kjölfar helmingunnar verið sá besti fyrir verðþróun Bitcoin og rafmyntir í hverri 4 ára helmingunarlotu.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi