Rafmyntasjóður
fyrir fagfjárfesta
Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.
Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.
Þessi grein eftir Daða Kristjánsson var birt í ViðskiptaMogganum þann 30. apríl sl.
Heimsmynd fjárfesta hefur breyst hratt á síðustu misserum. Í byrjun apríl mánaðar hóf ríkisstjórn Donalds Trump umfangsmiklar tollaaðgerðir á innflutning frá Kína og fleiri ríkjum. Markmiðið er að styrkja bandaríska framleiðslu, en afleiðingarnar eru víðtækar og skapa aukna tortryggni milli ríkja, vaxandi viðskiptahindranir og aukna efnahagslega óvissu á heimsvísu.
Frysting dollara og tollastríð draga úr trausti
Farið er að bera á djúpstæðu vantrausti á Bandaríkin sem öruggan áfangastað fyrir fjármagn. Sú þróun hófst ekki nú í apríl 2025, heldur má rekja upphaf hennar til ákvörðunar stjórnvalda í Washington í mars 2022 þegar ríkisstjórn Joe Biden frysti dollaraeignir rússneska seðlabankans í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Þessi ákvörðun opnaði augu þjóðríkja og fjárfesta fyrir því að eignir í dollurum eru ekki lengur hafnar yfir pólitíska áhættu.
Kína hefur í kjölfarið dregið úr eignarhaldi sínu á bandarískum ríkisskuldabréfum og í staðinn keypt gull í stórum stíl. Fleiri ríki hafa tekið sömu stefnu og leitast nú við að minnka vægi dollarans í sínum varaforða.
Með nýjustu tollastefnu sinni undirstrikar Trump enn frekar að Bandaríkin eru tilbúin að nota efnahagsleg vopn til að verja eigin hagsmuni. Þetta magnar vantraust á bandaríska fjármálakerfinu og minnkar aðdráttarafl bandarískra ríkisskuldabréfa sem áður þóttu öruggasti fjárfestingarkostur í heimi. Þegar stærsta hagkerfi heimsins hagar sér með þessum hætti, neyðast fjárfestar um allan heim til að endurmeta áhættu sína og eignadreifingu.
Þrátt fyrir þessa þróun er stór hluti alþjóðlegra og íslenskra fjárfesta enn mjög útsettur fyrir bandarískum eignum. Sérstaklega má nefna íslenska lífeyrissjóði, sem hafa mikinn meirihluta af sínum erlendu eignum í Bandaríkjunum. Þetta mikla vægi á einsleitar eignir eykur kerfisáhættu eignasafna. Ef traust á Bandaríkjunum heldur áfram að minnka, hvort sem er vegna viðskiptastefnu, pólitísks óstöðugleika eða veikrar skuldastöðu ríkissjóðs, gæti það haft veruleg áhrif á ávöxtun þeirra sem eru hlutfallslega of þungir í dollara eignum.
Samfara aukinni óvissu á alþjóðamörkuðum eykst einnig verðbólguáhætta. Þegar hagkerfi heimsins glíma við minnkandi traust, auknar viðskiptahindranir og hægari vöxt, grípa stjórnvöld oftar til aukinna ríkisútgjalda og örvunaraðgerða, sem yfirleitt eru fjármagnaðar með auknu peningamagni.
Ný hugsun um eignadreifingu
Í ljósi þessa þurfa fjárfestar að huga betur að raunverulegri eignadreifingu. Eitt er að dreifa áhættunni betur milli landsvæða og hefðbundinna myntkerfa en það eitt og sér dugir ekki til. Eignir sem eru sjálfstæðar gagnvart ríkisáhættu og peningaprentun eins og gull, aðrar hrávörur og stafrænar eignir eins og Bitcoin verða sífellt mikilvægari hluti fjárfestingastefnu þeirra sem horfa til framtíðar.
Bitcoin hefur eiginleika sem gera eignina sérstaklega áhugaverða í núverandi fjárfestingarumhverfi. Útgáfa Bitcoin er fyrirfram skilgreind og óbreytanleg, aðeins 21 milljón eininga verða nokkru sinni til. Þetta fastmótaða framboð er ákvarðað með opnum kóða og kerfið er tryggt með dreifðu neti milljóna sjálfstæðra þátttakenda. Ólíkt hefðbundnum gjaldmiðlum, sem háðir eru pólitískum ákvörðunum um peningamagn og vexti, býður Bitcoin upp á fyrirsjáanlegt, óháð og ósveigjanlegt peningakerfi. Það gerir Bitcoin að raunverulegri verðmætageymslu í heimi þar sem traust til yfirvalda er að dvína.
Frysting dollaraeigna Rússlands og ný tollastefna Bandaríkjanna hafa breytt grundvallarforsendum alþjóðlegra fjármála. Fjárfestar þurfa að bregðast við minnkandi trausti milli þjóða, aukinni pólitískri áhættu og sveiflukenndari heimsmynd með því að endurskoða eignadreifingu sína og styrkja stöðu sína með óháðum og traustum eignum eins og gulli og Bitcoin sem ekki er hægt að prenta eftir geðþótta stjórnamálamanna.