Rafmyntasjóður
fyrir fagfjárfesta
Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.
Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.
Miklar sveiflur og óvissa hafa einkennt markaði síðustu misseri og hefur framferði Bandaríkjanna gagnvart viðskiptalöndum sínum haft þar mest áhrif. Heimurinn er allt í einu kominn í tollastríð eftir að Donald Trump setti fram tolla á öll viðskiptalönd Bandaríkjanna í byrjun apríl. Aðferðafræði forsetans hefur vægast sagt verið mjög umdeild og skapað glundroða í heimshagkerfinu og á mörkuðum. Þá er Trump einnig með háleit markmið um niðurskurð í ríkisfjármálum. Þau vandamál sem Trump er að reyna að leysa eru þó mörg hver raunveruleg og er þeim lýst ágætlega í grein frá Visku frá 2023 sem nefnist „Skuldakrísa Bandaríkjanna – hnignandi heimsveldi“ (sjá hér).
Lækkanir á mörkuðum
Hér sést að lækkanir á hlutabréfavísitölu Nasdaq í ár hafa nánast verið á pari við mestu lækkanir áratugarins (reiknað í evrum). Til samanburðar má sjá að lækkanir á Bitcoin hafa verið mun minni í þessari lækkun, samanborið við fyrri lækkanir. Það vekur óneitanlega athygli hvað Bitcoin heldur ágætlega velli hlutfallslega, í ljósi þess að ávöxtun á Bitcoin hefur verið meiri en Nasdaq átta af síðustu tíu árum (sjá hér).
Bitcoin sýnir styrk
Til viðbótar hefur Bitcoin sýnt mikinn styrk á seinni hluta apríl mánaðar og er búið að hækka um 14% í mánuðinum þegar þetta er skrifað, á meðan helstu hlutabréfavísitölur hafa lækkað á sama tíma. Innflæði í Bitcoin kauphallarsjóðina nam 1,4 milljörðum dollara fyrstu 2 daga vikunnar. Fjárfestar virðast í auknum mæli vera að færa sparnað sinn yfir í Bitcoin, enda hafa aðilar á borð við BlackRock mælt með Bitcoin sem fjárfestingarkost á tímum mikilla breytinga í heiminum.
Fjárfestar endurskoða eignasöfn sín
Þá hafa fjárfestar um allan heim verið að endurskoða viðhorf sitt til Bandaríkjanna í ljósi nýliðinna atburða og framferði Donald Trumps. Þar má nefna að vægi Bandaríkjanna í heimsvísitölu hlutabréfa MSCI er 72% og næsta land sem kemur þar á eftir er Japan með 5,4%. Fjárfestar kunna því að velta fyrir sér hvort þessi mynd kynni að breytast samhliða mögulega minnkandi vægi Bandaríkjanna og dollarans í heiminum yfir tíma. Miklar lækkanir á gengi dollarans eru sterk vísbending um flæði út úr Bandaríkjunum en gengisvísitala dollarans (DXY) hefur lækkað yfir 10% frá því að Donald Trump tók við embætti.
Í febrúar á þessu ári birti BlackRock skýrslu þar sem Bitcoin er nú í fyrsta sinn orðið hluti af viðmiðunarsafni (e. model portfolio) BlackRock (sjá umfjöllun Visku hér). Viðmiðunarsafnið er sett saman af BlackRock til að endurspegla þá eignaflokka sem þeir telja í eignasöfnum fjárfesta.
Bitcoin hluti af nýrri heimsmynd
Ástæðan fyrir Bitcoin sem viðbót er sú að BlackRock telur Bitcoin vera góðan valkost í breyttri heimsmynd. Mikil skuldasöfnun, ósjálfbærni ríkisfjármála, minnkandi vægi bandaríkjadollars og spenna á milli stórvelda eru allt ástæður fyrir því að fjárfestar þurfi að endurhugsa eignasöfn sín. Þar kemur Bitcoin inn með nýja og ólíka eiginleika miðað við marga aðra eignaflokka. Bitcoin er eign sem er óháð þjóðríkjum og seðlabönkum. Ekki er hægt að gefa út fleiri Bitcoin en þau sem eru fyrirfram skilgreind í útgáfuáætluninni, og aukinn áhugi fjárfesta um allan heim bendir til þess að Bitcoin sé að verða veigameiri hluti af eignasöfnum.