Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Bitcoin fær aukna athygli í bankakrísu  


Bankakrísan í Bandaríkjunum virðist enn vera í fullum gangi og hafa nú 3 stórir bandarískir bankar verið teknir yfir eða farið í þrot. Þessir 3 bankar eru í hópi stærstu banka sem hafa fallið í sögu Bandaríkjanna frá upphafi. Í gær 3. maí barst síðan tilkynning frá bankanum Pacific Western Bank (PacWest) sem tilkynnti að þeir væru að leita leiða til þess að bjarga bankanum frá falli en gengi bankans hefur fallið um 90% síðustu mánuði. Á tímum netbanka og snjallsíma eru sparifjáreigendur mun fljótari að bregðast við áhyggjum af stöðu banka og hafa fjármunir streymt í aðrar öruggari eignir. Hér sjáum við mynd sem sýnir fallna banka í bandaríkjunum og stærð þeirra í hlutfalli við banka sem féllu í kjölfar fjármálakreppunnar miklu frá 2008.

Mynd 1 – Bankar sem hafa fallið í Bandaríkjunum síðustu 21 árin eftir stærð (Heimild: Mike Bostock)

Alþjóðlegi bankinn Standard Chartered birti í apríl grein sem fjallar um hvernig Bitcoin hefur fengið aukna athygli í núverandi bankakrísu. Forstöðumaður greiningardeildar rafmynta hjá Standard Chartered, Geoff Kendrick, fjallar í áðurnefndri grein um hvernig Bitcoin gæti náð verðum allt að 100.000 USD fyrir lok árs 2024. Þó er rétt að nefna að háfleygar spár um virði Bitcoin hafa ekki allar ræst þar sem sérstaklega erfitt er að spá fyrir um verðþróun til skamms tíma. Þó er áhugavert að nefna að þessar hugleiðingar koma frá stórum alþjóðlegum banka.

Hins vegar hefur verðþróun á Bitcoin almennt fylgt ágætlega 4 ára tímabilum sem verða til í kringum svokallaðar helmingunarlotur (e. halving cycles) þegar fjöldi Bitcoin sem verða til daglega lækkar um helming. Næsta helmingun mun eiga sér stað vorið 2024 eða eftir um 1 ár. Á þessari mynd er núverandi tímabil frá 2021 borið saman við síðustu 2 helmingunarlotur. Upphafspunktur hverrar lotu á myndinni markar hápunkt þeirra lotu. Þegar verð á Bitcoin hefur lækkað í um 400 daga frá síðasta hápunkti hefur verðið jafnan byrjað að taka við sér að nýju og stefnt í átt að hágildinu á ný.

Mynd 2 – Söguleg verðþróun á Bitcoin eftir tímabilum – samanburður á síðustu 3 helmingunarlotum

Þá er líka athyglisvert að fylgni Bitcoin við hlutabréfavísitölu S&P500 hefur lækkað mikið hefur ekki verið lægri í 1,5 ár. Í mars mánuði sáum við Bitcoin taka dágóðar hækkarnir á sama tíma og bankar lækkuðu í verði.

Mynd 3 – Fylgni á milli Bitcoin og S&P500 hlutabréfavísitölunnar (CNBC, mars 2023)

Núverandi bankakrísa í Bandaríkjunum virðist því ekki vera yfirstaðin og á þessum tíma er óljóst hvernig endalok hennar muni spilast út. Líklega verður þörf á enn frekari inngripum yfirvalda til að sporna við áframhaldandi áhlaupi á minni banka í Bandaríkjunum. Sagan segir okkur að slík inngrip hafa haft jákvæð áhrif á verðþróun óháðra eigna með takmarkað framboð eins og Bitcoin og gull. Því verður athyglisvert að fylgjast með þróun mála næstu mánuðina.

Heimildir:

https://www.reuters.com/markets/us/bitcoin-could-hit-100000-by-end-2024-standard-chartered-says-2023-04-24/

https://www.cnbc.com/2023/03/30/bitcoins-correlation-with-stocks-is-at-its-lowest-since-2021-as-investors-grapple-with-the-cryptocurrencys-narrative-shift.html

https://observablehq.com/@mbostock/bank-failures


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi