Rafmyntasjóður
fyrir fagfjárfesta
Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.
Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þann 4. ágúst.
Rafmyntin Bitcoin er á allra vörum og margir hafa sínar efasemdir um ágæti hennar. Sem dæmi hefur rafmyntinni verið líkt við bólu þar sem spákaupmenn keyra upp verðið í hagnaðarskyni til að „selja meiri flónum sem kaupa síðar“. Er Bitcoin orðið að eignarflokki og á þessi gagnrýni rétt á sér?
Þegar markaðir byrja að verðleggja eignarflokka umfram raunvirði eða virði til lengri tíma er talað um bólumyndun. Yfirleitt eru slíkar bólur fljótar að springa með þeim afleiðingum að eignarflokkurinn á oft ekki afturkvæmt. Tvær þekktustu bólur fyrr og síðar eru Túlípanaæðið árið 1636–37 þegar verð á túlípönum 20-faldaðist á nokkrum mánuðum, áður en verðið hrundi um 99%, og Dot-com bólan í kringum aldamótin þar sem hlutabréf í tæknifyrirtækjum ruku upp á örfáum árum en hrundu svo með þeim afleiðingum að NASDAQ vísitalan lækkaði um 80% á tveimur árum. Þessi markaðshegðun tekur oft stuttan tíma og skilur eftir sviðna jörð. Bitcoin hefur sveiflast mikið frá því það kom fyrst fram, en hvernig hefur markaður með það verið?
Fyrsta Bitcoin-færslan var gerð fyrir rúmum 10 árum og virk verðmyndun á mörkuðum hefur átt sér stað á síðustu átta árum. Á þeim tíma hefur verðið á rafmyntinni farið úr engu í 19.650 Bandaríkjadali þegar hæst stóð í síðustu uppsveiflu. Bitcoin lauk nýlega sinni fimmtu stóru leiðréttingarlotu, en það rauf 10.000 Bandaríkjadala múrinn þann 21. júní síðastliðinn. Það sem af er ári hefur virði Bitcoin rúmlega þrefaldast og ef þróunin heldur áfram eins og í fyrri lotum á markaðsvirðið ennþá langt í land.
Þessar leiðréttingar hafa allar framkallað yfir 70% samdrátt í markaðsvirði en alltaf snýr rafmyntin aftur. Það er því augljóst að Bitcoin er í algjörum sérflokki með að standa af sér miklar lækkanir og eflaust kominn tími til að hætta að kalla það bólu.
Gull er þekktasta geymsluverðmætið sem hægt er að nota til að verja sig gangvart niðursveiflum á mörkuðum. Öfugt við það sem flestir halda þá hefur verðþróun gulls verið allt annað en dans á rósum. Á síðustu 100 árum hafa sveiflurnar á mörkuðum með gull verið gífurlegar. Eftir verðþvinganir Vesturlanda sprakk gullfóturinn árið 1971 og verðið nífaldaðist á átta árum. Raunar voru stjórnvöld í Bandaríkjunum svo uppiskroppa með gull að einstaklingum var bannað með lögum að eiga það frá árinu 1933 til 1975. Nú hefur komið í ljós að fylgni milli Bitcoin og gulls er talsverð.
Fjárfestar eru í auknum mæli að horfa á Bitcoin sem „hart geymsluverðmæti“ eins og gull, sökum fyrirsjáanleika í peningastefnu þess. Að auki er rafmyntin einnig þeim kostum gædd að hún er meðfærilegri, kostnaður við geymslu er lægri, sannreyning er auðveldari og það getur hver sem er brotið hana niður í smærri einingar.
Aftur á móti er neikvæð fylgni milli Bitcoin og hlutabréfa. Rafmyntin fellur því í sama flokk og verðtryggð ríkisskuldabréf og jafnvel húsnæði, það er eignarflokka sem eru yfirleitt ekki með fylgni á við hlutabréf. Þar af leiðandi eru fagfjárfestar farnir að bæta rafmyntinni í eignasafnið til að ná fram umframávöxtun. Nú þegar Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hafið sínar fyrstu vaxtalækkanir frá síðustu niðursveiflu verður fróðlegt að fylgjast með hvernig markaðsvirði Bitcoin bregst við. Yfirvofandi samdráttur í hagkerfinu er sá fyrsti sem mun eiga sér stað í sögu virkrar verðmyndunar með Bitcoin og fær rafmyntin því í fyrsta skiptið tækifæri til að sýna hvers megnug hún er.
Rúmlega 70% af öllu Bitcoin sem til er í dag hafa legið óhreyfð á reikningum í yfir 180 daga. Þetta gefur skýra vísbendingu um að eigendur rafmyntarinnar halda fast í hana og eru ekki að stunda svokallaða spákaupmennsku. Þetta verður að teljast merkilegt í ljósi þess að verðið hefur rúmlega þrefaldast á tímabilinu. Þess má einnig geta að rúmlega helmingur hefur verið óhreyfður í yfir ár og þriðjungur í yfir tvö ár.
Framboð rafmyntarinnar er fyrirfram þekkt og í heildina verða einungis til 21 miljón eintök. Fjórða hvert ár helmingast útgáfan sem nú er um 3,8% á ársgrunni en í maí á næsta ári fer hún undir tvö prósent. Þessi atburður hefur sögulega aukið á sveiflur og haft jákvæð áhrif á verðið það sem framboðið minnkar. Það verður áhugavert að fylgjast með þessum eignarflokki þróast á næstu mánuðum.